Fréttir og tilkynningar

Ritalín er eitt eftirsóttasta vímuefnið á hinum ólöglega markaði

Tölulegar upplýsingar frá Sjúkrahúsinu Vogi og könnun á örvandi vímuefnaneyslu sjúklinganna sem eru að leita sér meðferðar á þessu ári 2010 sýna svo ekki verður um villst að ávísun lækna á lyfið methylfenydat eða ritalín verður að endurskoða.
Sölutölur um lyfið þarf að skoða yfir langan tíma og bera saman við tölulegar upplýsingar frá Sjúkrahúsinu Vogi og könnun á hinum ólöglega vímuefnamarkaði til að sjá málið í réttu ljósi.
Faraldur ólöglegrar amfetamínneyslu að sænskri fyrirmynd hófst á Íslandi árið 1983. Faraldurinn einkennist af því að neytendurnir notuðu stóra skammtar af efninu og voru þekktir kannabisneytendur fyrir. Gamlir fíklar með nýtt efni. Þeir sugu efnið í nef og um 60% þeirra sprautuðu efninu í æð. Neytendurnir voru ungir og leiddust margir þeirra fljótt út í afbrot. Eitt hvað dró úr faraldrinum frá 1987 til 1992. Á árunum 1995 til 2000 vex faraldurinn gríðarlega og nýju neytendurnir eru mjög ungir og eru að leita sér meðferðar í fyrsta sinn. Nýir fíklar með nýtt efni. Inn í amfetamínfaraldurinn komu kókaín og E- Pillur og æ algengara var að sjúklingarnir sem komu til meðferðar voru að fara úr einu örvandi efninu í annað eftir efnum og aðstæðum.
Einmitt á þessum árum 1995 til 2000 er létt hömlun á ávísun lækna á amfetamín og skyldra efni. Sölutölur rjúka þá upp og við setjum enn eitt heimsmetið. Um og eftir 2000 verður það æ algengara að sjúklingar leita á Vog sem fyrst og fremst eru háðir ritalíni og sprauta því í æð. Sjúklingarnir sögðu fíkn sína í þetta efni jafnvel sterkar en í flest önnur vímuefni. Þetta var auðvita óásættanlegt en ástand hélst nokkuð óbreytt næstu árin hvað ritalínið varðaði meðan kókaínneysla sótti í sig veðrið.
Þegar hrunið varð og kreppan kom minnkaði framboð á ólöglegu amfetamíni, kókaíni og E-pillum og sést það greinilega á tölunum frá Vogi 2009. Það sem stingur þó í augun er að ritalínneyslan vex hratt og vinnur upp þá minnkun sem varð á ólöglega amfetamíninu svo að amfetamínfíklum fjölgar hlutfallslega meðan kókaínfíklum og e-pillufíklum fækkar skart.
Til að skoða betur þessar breytingar var hrundið af stað viðamikilli upplýsingasöfnun um örvandi vímuefnaneyslu á Vogi. Nú liggja fyrir fyrstu upplýsingarnar um 600 einstaklinga sem komið hafa á Vog þetta árið. Í ljós kemur að 429 hafa notað örvandi vímuefni og 109 hafa sprautað efnunum í æð. Af þeim 109 sem sprautað hafa örvandi vímuefnum í æð segjast 64 eða um 60% að ritalín sé það efni sem þeir noti mest eða næstmest. Þeir segjast sprauta sig 10-20 sinnum á dag og nota tugi taflna daglega. 103 af 109 sprautufíklum eru að nota rítalín eitt og sér eða með örðum örvandi vímuefnum.
Þessar upplýsingar ber að taka alvarlega og þær kalla á viðbrögð.