Fréttir og tilkynningar

Samstarf við Opna háskólann í HR

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og Opni háskólinn í HR hafa gert með sér viljayfirlýsingu um samstarf vegna nýrrar námslínu fyrir stjórnendur í þriðja geiranum. Áhersla námslínunnar verður á hagnýta þekkingu og að gefa nemendum tækifæri til að efla færni sína í starfi. Kennt verður með raunhæfum verkefnum til að tengja námið vinnuumhverfi og verkefnum þátttakenda. Samtökin Almannaheill standa að námslínunni með HR og áttu frumkvæðið að þessu verkefni.

Námslínan samanstendur af sjö grunnefnisþáttum:

• Frjáls félagasamtök og réttarumhverfi
• Forysta og stjórnun í þriðja geiranum
• Stefnumótun almannaheillasamtaka
• Mannauðsstjórnun og stjórnun sjálfboðaliða almannaheillasamtaka
• Fjármálastjórnun, fjáraflanir og samningatækni
• Hagnýt verkefna- og viðburðastjórnun
• Markaðssetning og samfélagsmiðlar

Við hjá SFV erum mjög ánægð með að sjá námslínu sem er sérsniðin að frjálsum félagasamtökum og sjálfseignarstofnunum. Við teljum einnig ljóst að svona námskeið nýtist líka stjórnendum annarra félaga, enda svo margir stjórnendur sem þurfa að vera allt í öllu innan síns fyrirtækis (stýra stefnumótun, mannauðsmálum, fjármálum, viðburðum o.frv.) óháð formi fyrirtækisins. Svona alhliða námskeið ætti því að vera mjög gagnlegt stærstum hluta aðildarfélaga SFV.