Fréttir og tilkynningar

Síðsumarsþankar

gudjon_gudmundsson

Sú kvöð hvílir á dvalar- og hjúkrunarheimilum að innheimta hlut íbúa í dvalarkostnaði, en viðkomandi er gert að taka þátt í kostnaði nemi heildartekjur eftir skatt meira en 65.005 krónum á mánuði. Hér á Höfða eru það um 62% íbúanna sem taka þátt í þessum kostnaði. Framkvæmd þessarar innheimtu er afskaplega einföld af hálfu Tryggingastofnunar. Greiðsluþáttaka íbúanna er einfaldlega dregin frá mánaðarlegu uppgjöri daggjalda og viðkomandi heimili gert að innheimta kostnaðinn hjá íbúum. Ekki þarf að taka fram að engin þóknun er greidd til heimilanna vegna þessarar innheimtu.

Öllu verra er þó þegar íbúarnir fá álagningu skattstjóra síðla árs. Þá er verið að gera upp síðasta ár og í fjölmörgum tilfellum leiðir það til viðbótar álagningar vegna rangrar tekjuáætlunar ársins, oftast vegna vantalinna fjármagnstekna. Og enn er heimilunum gert að innheimta þetta og takist það ekki situr heimilið uppi með tjónið. Þarna getur verið um að ræða mjög háar upphæðir, hundruð þúsunda og jafnvel milljónir hjá einstaklingi. Þetta getur verið mjög erfitt að innheimta. Dæmi eru um að viðkomandi einstaklingur hafi látist árið áður og dánarbú verið gert upp. Þá er þetta í flestum tilfellum tapað fé. Ég benti Tryggingastofnun á þetta vandamál og fékk það svar að við ættum að tilkynna dánarbúi um hugsanlegan bakreikning!

Við þetta verður ekki unað. Að sögn félags- og tryggingamálaráðherra stendur til að endurskoða tryggingalöggjöfina í haust. Stjórnendur dvalar- og hjúkrunarheimila verða allir sem einn að koma þeim skilaboðum á framfæri að þessari innheimtuskyldu heimilanna verði aflétt við þá endurskoðun.

Á fundi SFH 14.júní s.l. voru kynntar hugmyndir félags- og tryggingamálaráðuneytis varðandi fjárlög næsta árs. Þar kom fram að væntanleg væri lækkun daggjalda og að dvalarrýmum verði fækkað um 50 og hjúkrunarrýmum fækkað um 39. Ég á erfitt með að skilja þessa hugmynd um fækkun rýma. Á því heimili sem ég stjórna er alltaf biðlisti, alltaf 100% nýting og heimilið byggt upp miðað við núverandi íbúafjölda. Það sem ég ekki skil er að á sama tíma og stendur til að fækka íbúum á þeim heimilum sem nú eru í rekstri er verið að undirbúa byggingu nýrra hjúkrunarheimila hér og þar. Ég leyfi mér að vona að fallið verði frá þessari hugmynd um fækkun rýma, enda vandséð hvað sparast við þessa fækkun á sama tíma og ný heimili taka til starfa með fjölda hjúkrunarrýma.

Hér á Höfða eru 48 hjúkrunarrými og 30 dvalarrými. Með breyttu vistunarmati má segja að heimilið sé að verða alfarið hjúkrunarheimili. Það eru jafnan margir á biðlista eftir dvalarrými og þegar rými losnar fáum við 3 nöfn til að velja úr og það eru jafnan þeir sem vistunarmatsnefndin telur í mestri þörf fyrir vistun, gjarnan þeir sem eiga við mest veikindi að stríða. Mér sýnist því að eftir nokkur ár verði ekki rekin dvalar- og hjúkrunarheimili heldur eingöngu hjúkrunarheimili.

Annars allt gott héðan. Við erum að stækka þjónusturými Höfða og ganga framkvæmdir vel, enda gott veður til framkvæmda – einmuna blíða eins oftast er hér á Skipaskaga.

Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Höfða, Akranesi