Í nóvember sl. gaf Félagsmálaráðuneytið út efni um skipulag hjúkrunarheimila. Helstu ákvæði þar eru þau ; að nú skal gera ráð fyrir litlum einingum fyrir 6-10 íbúa, þar sem rúmgott einkarými skal vera fyrir hvern og einn, og sameiginlegt fyrir íbúa og starfsfólk viðkomandi einingar, meðal annars með eldunar- aðstöðu, borðstofu og dagstofu..
Þar er þess getið að litlar einingar auki námd og samveru íbúa og starfsfólks.
Síðan er því lýst af hvaða þáttum hugmyndafræði hjúkrunarheimila þurfi að taka mið.
Viðmið ráðuneytisins gerir ráð fyrir að fjöldi hjúkrunarýma á hverju svæði nemi 1,5% af fjölda íbúa á aldrinum 67-74 ára, 4,5 % þeirra sem eru 74-79 ára og 20% þeirra sem eru eldri en 80 ára. Í þessum viðmiðunum er gert ráð fyrir að 10-15 % séu fyrir hvíldarrými.
Þá er til þess ætlast að að metið verði hve hátt hlutfall rýma skuli ætlað heilabiluðum, en 67% aldraðra á hjúkrunarheimilum eru með einkenni heilabilunar, þar af 27% með Alzheimer og um 40% með aðra minnissjúkdóma.
Öll hjúkrunarrými skulu vera einbýli og sé þess kostur skulu heimilin byggð á einni hæð. Mun nánari lýsingu er að finna í nefndri greinargerð.um búnað og aðra aðstöðu.
Gert er ráð fyrir að heildarrými fyrir hvern einstakling geti verið allt að 75 fermetrar, en ekki kemur fram hvert einkarými hvers heimilimanns skuli vera í fermetrum, en heyrst hafa tölur á milli 30-40 fermetrar.
Full ástæða er til þess að hvetja ykkur til þess að skoða þessa útgáfu því þar er komið inn á margt áhugavert.
Að lokum má geta þess að skv. upplýsingum frá ráðuneytum félags- og heilbrigðismála er nú stutt í það að málefni hjúkrunarheimila flytjist alfarið yfir til félagsmálaráðuneytisins, en þangað höfðu áður verið flutt málefni dvalarheimila og Framkvæmdasjóður aldraðra.
Finnbogi Björnsson stjórnarmaður í SFH og framkvæmdastjóri Garðvangs