Þessu sló Helga Hansdóttir öldrunarlæknir fram í sjónvarpsfréttum sunnudaginn 1. mars sl. þegar rætt var um samanburð á kostnaði við veru einstaklings á öldrunarstofnun við það að búa á eigin heimili með heimaþjónustu. Ekki veit ég hvernig Helga getur fullyrt að það sé „alltaf ódýrara“ enda rökstuddi hún ekki þessa fullyrðingu sína. Hvet ég hana til að færa fram rökstuðning fyrir fullyrðingu sinni. Vegna orða Helgu vil ég segja að það að búa á eigin heimili með heimaþjónustu er algerlega ósambærilegt við að búa öldrunarstofnun og því með öllu ósamanburðarhæft og er því álit hennar um að það að búa á eigin heimili sé „alltaf ódýrara“ merkingarlaust. Það er fjarri mér að gera lítið úr mikilvægi þess fyrir hvern þann sem það getur og á þess kost að búa sem lengst heima með viðeigandi heimaþjónustu. Þróunin hefur verið sú á liðnum árum að viðkomandi býr lengur heima en áður og mun sú þróun halda áfram. Hægt væri að stíga enn frekari skref í þá átt með því að efla enn frekar heimaþjónustuna. Mikilvæg forsenda fyrir því skapaðist um síðustu áramót er ríkið og Reykjavíkurborg gerðu samkomulag um að frá þeim tíma að telja mun heimilishjálp og heimahjúkrun vera á könnu annars aðilans, þe. Reykjavíkurborgar. Formaður SFH, Gísli Páll Pálsson reifaði í grein í Mbl. 17. febrúar sl. þá hugmynd að flytja málefni öldrunarstofnana alfarið yfir í félags- og tryggingamálaráðuneyti. Ég er sammála viðhorfi formannins og vil benda á að við slíkan flutning er líklegt að þess verði skemmra að bíða að sveitarfélögin taki við fjárveitingarvaldi til öldrunarheimila. Teldi ég þá þróun skynsamlega, því þá væri undir einni yfirstjórn búsetumál aldraðra allt frá því að heimaþjónusta dugar og þar til stofnunarvist er óumflýjanleg.
Tryggvi Friðjónsson framkvæmdastjóri Sjálfsbjargarheimilisins og gjaldkeri SFH