Þegar eldra fólk flytur inn á hjúkrunar- eða dvalarheimili er því gert að taka þátt í kostnaði við dvölina hafi það tekjur yfir ákveðnum mörkum sem ákveðin eru af stjórnvöldum. Þeir sem hafa yfir 65.005 krónur á mánuði samtals í tekjur af lífeyrissjóði og fjármagnstekjum þurfa að greiða það sem umfram er til heimilisins og lækkar þá greiðsla Tryggingastofnunar um sömu upphæð. Einstaklingur sem er með 100 þúsund króna tekjur þarf því að greiða 35 þúsund krónur, einstaklingur með 200 þúsund króna tekjur 135 þúsund krónur o.s.frv.
Í raun kemur það því fólki ekki til góða að hafa byggt upp góð lífeyrisréttindi eða sparað til ellinnar, enginn má hafa meira til umráða en 65.005 krónur.Fyrir nokkrum árum voru fjármagnstekjur ekki teknar með í dæmið, síðan var farið að taka 50% af þeim og undanfarin ár eru fjármagnstekjur teknar með að fullu (vextir, húsaleiga o.fl.)
Það sem er óskiljanlegast við þessa skattheimtu er að viðmiðunin, 65.005 krónur á mánuði, hefur verið óbreytt frá 1.janúar 2009, eða í tæp 4 ár. Á sama tíma hafa allar nauðsynjar hækkað verulega í verði og laun þokast upp, svo og bætur almannatrygginga sem hafa hækkað um 11,88% á þessu tímabili.Þessi eini hópur situr eftir. Fólkið sem býr á hjúkrunar- og dvalarheimilum verður að gera sér að góðu að hafa óbreytt ráðstöfunarfé ár eftir ár þrátt fyrir verðbólgu, alveg jafnt þó það hafi komið sér upp góðum lífeyrisréttindum og einhverju sparifé til að hafa vexti af. Þetta eru kaldar kveðju til þessa fólks.
Ég skora á stjórnvöld að bæta úr þessu.
Lágmarkskrafa hlýtur að vera að 65.005 krónurnar hækki til jafns við bætur almannatrygginga og verði þá 72.728 krónur.
Guðjón Guðmundsson:
Höfundur er framkvæmdastjóri HÖFÐA hjúkrunar- og dvalarheimilis á Akranesi.