Velferðarráðuneytið birti fréttatilkynningu í gær, þann 28. nóvember 2018, undir fyrirsögninni: Réttar upplýsingar um fjölda fólks yngra en 67 ára á hjúkrunarheimilum. Þar kemur fram að velferðarráðuneytið hafi fengið upplýsingar frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) um fjölda einstaklinga undir 67 ára aldri á hjúkrunarheimilum. Samkvæmt upplýsingum SÍ búi samtals 139 einstaklingar yngri en 67 ára á hjúkrunarheimilum. Þar af séu um 62 einstaklingar í sérstökum rýmum og því séu það um 77 einstaklingar á landsvísu undir 67 ára aldri sem búi í almennum hjúkrunarrýmum á hjúkrunarheimilum víðsvegar um landið.
Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) telja rétt að benda á að það eru einungis hluti af hjúkrunarrýmum landsins sem heyra undir rammasamning Sjúkratrygginga Íslands. Undir rammasamning SÍ heyra 2.169 almenn hjúkrunarrými og 63 sérhæfð hjúkrunarrými, eða alls 2.232 hjúkrunarrými. Á landinu öllu eru hins vegar um 2.700 hjúkrunarrými.[2] Fulltrúar SFV fengu nýlega þær upplýsingar frá SÍ að hlutfallið væri nær 8%. Þetta gerir um 189 – 216 einstaklingar á landinu öllu eins og Bjarki Þorsteinsson, varaformaður SFV fór yfir í erindi sínu á málþingi samtakanna á þriðjudaginn.
Hugmyndin með málþinginu var að vekja athygli á þeirri staðreynd, að það er stór og sívaxandi hópur einstaklinga sem eru inn í hjúkrunarrýmum í dag sem þurfa að fá allt aðra þjónustu en hina hefðbundnu öldrunarþjónustu og ákveðið úrræðaleysi er að myndast innan þessara stofnana vegna þessa. Þjónusta í hjúkrunarrýmum hafði, þar til fyrir 10 árum, eingöngu verið fyrir einstaklinga 67 ára og eldri. Þar af leiðandi er þar til staðar ákveðin sérhæfing til að sinna þeim hópi, rétt eins og sérhæfing er í þá átt inni á öldrunardeildum Landspítalans. Þeir rekstraraðilar sem veita þessa þjónustu og eru einungis með almenn hjúkrunarrými, eru almennt ekki með sérþekkingu í þjónustu við líkamlega hrausta einstaklinga sem þjást af framheilaskaða, alvarlegum geðsjúkdómum eða eru í virkri kókaínneyslu, svo nokkur dæmi séu tekin. Sama á við um unga hreyfihamlaða einstaklinga. Þjónustan, umhverfið og umgjörðin öll tekur ekki mið af þörfum þessara einstaklinga. Þegar þessir einstaklingar lenda inn í úrræði sem ekki getur veitt þeim viðeigandi þjónustu, þá er það ekki bara erfitt úrlausnarefni fyrir starfsfólkið og aðra íbúa á því hjúkrunarheimili, heldur er einnig verið að setja einstaklinginn sjálfan í erfiða stöðu. Því er þörf á því að fjölga umtalsvert sérhæfðum rýmum, deildum og stofnunum sem fá það verkefni og aðstöðu að veita tilteknum hópum sérhæfða þjónustu. Má þar sérstaklega nefna þjónustu fyrir yngri einstaklinga, sem og sérhæfð rými fyrir geðfatlaða.
Eðlilegt er að mál ungra, langveikra einstaklinga, sem eru jafnvel með algerlega óskerta andlega færni og þurfa að dvelja jafnvel áratugum saman í almennu hjúkrunarrými með öldruðum, fái mikla athygli og umfjöllun, jafnvel þó sá fjöldi einstaklinga sé e.t.v. ekki mikill. Önnur tilfelli, eins og fólk með alvarlega geðsjúkdóma og/eða fíknisjúkdóma, fá það kannski síður. SFV stýra því hinsvegar ekki hvernig umræðan í samfélaginu og fjölmiðlum þróast í kringum svona málþing.
Þá gera samtökin sér ennfremur grein fyrir því að þetta málefni er mjög vandmeðfarið í allri almennri umræðu. En það má ekki leiða til þess að umræðan sé ekki tekin. Ákveðið var við skipulagningu málþingsins að bjóða nokkrum fulltrúum af hálfu ríkisins, sveitarfélaga og einstaklinganna sem um ræðir, að taka þátt í málþinginu og koma á framfæri þeirra sýn á þetta gríðarflókna málefni. Berglind Magnúsdóttir skrifstofustjóri öldrunarþjónustunnar hjá Reykjavíkurborg og Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands héldu báðar mjög áhugaverð erindi, sem er þakkavert. Velferðarráðuneytið ákvað hins vegar að afþakka boð um þátttöku í málþinginu. Okkur hjá SFV þótti það mjög miður, enda tækifæri þar fyrir ráðuneytið að koma á framfæri sinni tölfræði, sinni sýn og sínum sjónarmiðum til málefnisins út í samfélagið.
Reykjavík, 29. nóvember 2018,
f.h. Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu
Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SFV
[1] Sjá bls. 3 í skýrslunni ,, Staða framkvæmdaáætlunar um byggingu hjúkrunarrýma og tillögur um framhald framkvæmdaáætlunar til ársins 2023“, 1. mars 2018: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=0a02ee73-47ef-11e8-942b-005056bc530c
[2] Sjá: http://www.ruv.is/frett/hjukrunarheimili-ekki-bara-fyrir-gamalt-folk