Fréttir og tilkynningar

Tilkynning vegna lífeyrisskuldbindinga

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og fjármála – og efnahagsráðherra undirrituðu þann 28. október sl. samkomulag um yfirtöku ríkisins á lífeyrisskuldbindingum fjögurra aðildarfélaga innan SFV. Umrætt samkomulag á rætur sínar að rekja til eldra samkomulags SFV við ráðuneytið frá árinu 2014 sem hefur nú að stórum hluta verið uppfyllt.

Samkomulagið felur í sér að ríkið muni taka yfir stóran hluta (ýmist 85% eða 90%) af heildarlífeyrisskuldbindingum SÁÁ Krabbameinsfélagsins, Sjálfsbjargar og Heilsustofnunar NLFÍ. Stjórn SFV lýsir yfir ánægju sinni með þetta samkomulag sem hefur átt sér mjög langan aðdraganda, en yfirtakan mun hafa umtalsverð jákvæð áhrif á rekstur þessara stofnana til lengri tíma litið.

Stjórn SFV telur þó rétt að vekja athygli á að innan raða samtakanna eru enn fjögur aðildarfélög sem ekki eru aðilar að neinu samkomulagi við ráðuneytið og sitja því uppi með háar lífeyrisskuldbindingar sem eru mjög íþyngjandi fyrir rekstur þeirra. Um er að ræða eftirfarandi aðildarfélög: Múlabær, Hlíðabær, Sólheimar og Kumbaravogur.

Stjórn SFV kallar eftir viðræðum við stjórnvöld um hvernig leysa eigi mál þessara aðila.