Fréttir og tilkynningar

Tímabært að stjórnvöld svari því hvað þau vilja í málefnum aldraðra

peturmynd

Í nýrri mannfjöldaspá Hagstofunnar kemur fram að gert er ráð fyrir að Íslendingum fjölgi um 33% til ársins 2060 þegar þeir verða orðnir rúmlega 430 þúsund talsins. Að sama skapi hækkar meðalaldur en nú mega íslenskar konur almennt gera ráð fyrir því að verða 84 ára og karlar 81 árs. Árið 2060 mun meðalaldurinn hafa hækkað í rúm 88 ár hjá konum og tæplega 87 ár hjá körlum. Við sem störfum í þjónustu við aldraða fylgjumst eðlilega mjög vel með þróuninni. Almennt má segja að fjölgun í hópi eldri borgara verði um 30% á hverjum áratug sem framundan er. Svo þetta sé sett í nánara samhengi fjölgar þjónustuþegum í öldrunarþjónustu á Íslandi um 3-4% á hverju einasta ári næstu áratugina.

Við höfum í mörg undanfarin ár bent stjórnvöldum á nauðsyn þess að móta raunhæfa framtíðarstefnu í málaflokknum og fylgja henni eftir með aðgerðum sem mætt geta aukinni þjónustuþörf í samfélaginu. Sjálfur starfa ég á öldurnarheimilum þar sem reynt er eftir fremsta megni að veita þeim andlega, líkamlega og félagslega vellíðan sem þurfa á mestri þjónustu að halda. Í forsendum fyrir starfsemi nær allra dvalar- og hjúkrunarheimila landsins er ekki miðað við að heimilin skili fjárhagslegum arði til eigendanna, heldur er öllum tekjum rekstrarins varið til starfseminnar sjálfrar, þjónustu og eftir atvikum til frekari uppbyggingar.

Hvaðan koma tekjurnar?

Tekjur af rekstri öldurnarheimila eru nánast eingöngu daggjöld sem greidd eru úr ríkissjóði og stjórnvöld ákveða einhliða. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir hefur aldrei fengist uppgefið hvaða útreikningar liggja til grundvallar ákvörðun um upphæð daggjaldanna. Sömuleiðis hafa stjórnvöld í mörg ár komið sér hjá því að gera samning um þá þjónustu sem þau vilja að öldrunarheimilin veiti og starfa þau því flest án neinna samninga við ríkið.

Ríkisendurskoðun staðfestir vandann

Öllum er ljóst að þróun daggjalda á umliðnum árum hefur ekki fylgt raunverulegri þróun á kostnaðarliðum öldrunarheimila og þrátt fyrir umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir á síðustu árum standa daggjöldin ekki lengur undir eðlilegum rekstri. Flest hjúkrunar- og dvalarheimili landsins hafa verið rekin með halla undanfarin ár og nú eru sterkar vísbendingar um að árið 2013 verði erfiðast í samanburði við síðustu ár. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um dvalarheimili sem gefin var út í nóvember 2012, segir að rekstur dvalarrýma hafi verið rekinn með verulegu tapi um langt skeið og skýrsla sömu stofnunnar um hjúkrunarrými frá því í febrúar 2012, gefur síður en svo til kynna of gott ástand í þeim málaflokki.

Þarf að hætta lögbundinni þjónustu?

Nýjar reglur heilbrigðisyfirvalda um innritanir á dvalar- og hjúkrunarheimili sem tóku gildi árið 2008 gerðu beinlínis ráð fyrir því að umönnun, hjúkrun og önnur þjónusta myndi aukast á öldrunarheimilunum enda flytjast einstaklingar nú veikari á heimilin en áður var. Hins vegar var ekki gert ráð fyrir hækkun á framlögum frá ríkinu samfara aukinni þjónustu sem öldrunarheimilin eiga að veita. Nú er svo komið að launakostnaður til þeirra sem fá greitt samkvæmt kjarasamningum á öldrunarheimilum nemur á bilinu 75-80% af heildarkostnaði við rekstur heimilanna. Ekki verður gengið lengra í hagræðingu og niðurskurði án þess að hætta einhverri lögbundinni þjónustu.

Kröfugerð án samráðs og kynningar

Á vef velferðarráðuneytisins var fyrir nokkru birt „Kröfulýsing fyrir öldrunarþjónustu“, 2. útgáfa. Í henni eru tíundaðar hinar ýmsu kröfugerðir sem snúa að þjónustu og aðhlynningu við heimilisfólk á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Enda þótt þar sé ýmislegt gott að finna er vert að taka fram að kröfugerðin var hvorki unnin í samráði við öldrunarheimilin né hefur hún verið kynnt formlega fyrir þeim sem reka heimilin. Þá er heldur ekki að sjá að kröfurnar sem settar eru fram hafi verið kostnaðarmetnar að neinu leyti – þó er það forsenda þess að unnt sé að uppfylla kröfurnar. Það skýtur nokkuð skökku við að á sama tíma og ríkisvaldið kemur sér hjá að gera þjónustusamninga við öldrunarstofnanir landsins skuli stjórnvöld setja fram auknar þjónustukröfur vitandi vits að núverandi fjárframlög duga ekki fyrir núverandi kröfum ríkisins.

Breytinga er þörf strax

Nú er kominn sá tímapunktur að stjórnvöld verða að gera það upp við sig hvaða þjónustu þau vilji bjóða þeim sem þurfa á hjúkrunar- eða dvalarrýmum að halda. Kröfur stjórnenda og starfsfólks í öldrunarþjónustu til fjárveitingavaldsins eru hvorki miklar né ósanngjarnar. Aðeins er farið fram á að greitt sé eðlilegt og sanngjarnt verð fyrir þá þjónustu sem veita á öldruðum og að verðið sé uppfært með reglubundnum og eðlilegum hætti. Þetta þarf að laga strax. Treysti stjórnvöld sér ekki til að greiða eðlilegt verð fyrir núverandi þjónustu er eðlilegt að þau svari því hvaða þjónustu þau vilji að öldruðum sé veitt á næstu árum. Stefnuleysi og glundroði sem ríkt hefur í þessum mikilvæga málaflokki er smánarblettur á stjórnkerfinu og íslenska velferðarsamfélaginu. Aldraðir hafa skilað sínu dagsverki til uppbyggingar samfélagsins. Þeir eiga það skilið að þessi málaflokkur sé góðu lagi.

Pétur Magnússon
Forstjóri Hrafnistuheimilanna