Fréttir og tilkynningar

Þjónusta við aldraða – ólíkar þarfir eftir búsetu

Bjarki2

Sú umræða er lífsseig að dvalarrýmum eigi að útrýma af stofnunum í öldrunargeiranum. Í staðinn eigi að veita fólki þá þjónustu sem þarf til að fólk geti verið lengur heima. Dvalrrýmum hefur fækkað jafnt og þétt og er það nú orðið þannig víða að dvalarrými eru nánast horfin og öldrunarstofnanir, eða öldrunarheimili eins og ég kýs frekar að kalla þau, eru nú nær eingöngu samsett af hjúkrunarrýmiseinstaklingum. Þetta er nokkuð rökrétt þróun að mínu viti en samt sem áður má ekki ganga of langt, allavega þarf að meta stöðuna vel á einstökum svæðum á landsbyggðinni. Sum samfélög eru nefnilega þannig uppbyggð og samsett að fjarlægðir eru gríðarlegar og óhægt um vik að veita þjónustu heim. Það er reynsla okkar í Borgarbyggð þar sem undirritaður veitir Dvalarheimili aldraðra forstöðu að dvalarrými eru mikilvæg þjónustuúrræði, ekki síst þar sem fjarlægðir eru gríðarlegar og að heimahjúkrun er einungis veitt á virkum dögum á dagvinnutíma. Sú staða er einmitt uppi víða um land, ekki er boðið upp á heimahjúkrun á vegum hins opinbera 118 daga á ári og ekki á kvöldin og nóttunni nema í algjörum undantekningartilfellum. Því til viðbótar geta fjarlægðir á milli bæja í dreyfbýli verið það mikilar að ekki er mögulegt að treysta á nágranna. Því er það bjargföst skoðn mín að alls ekki megi útrýma dvalarrýmum með öllu, allavega þarf það að vera mjög meðvituð ákvörðun þegar að því kemur og hið opinbera, ríki eða sveitarfélög, verða að vera búin að upphugsa annað eða önnur úrræði til handa fullorðnu fólki sem í þeirri stöðu er að þurfa að bregða búi heima fyrir. Aukið framboð þjónustuíbúða með ákveðnum þjónustuúrræðum gæti verið valkostur í þessu verkefni og nauðsynlegt að hugað verði að því þannig að sköpuð verði ásættanleg umgjörð í kringum þá þjónustu ef eða þegar dvalarrýmunum verði útrýmt.

Til viðbótar þessari hugleiðingu hér að ofan langar mig að segja frá því að Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi hélt í upphafi árs 2011 upp á að 40 ár eru liðin frá því að heimilið tók til starfa. Af því tilefni ákvað stjórn heimilisins að fara í stefnumótunarvinnu varðandi möguleika á samþættingu í þjónustu við aldraðra á svæðinu í samstarfi við sveitarfélögin sem að heimilinu standa, þ.e. Borgarbyggð, Eyja og Miklaholtshrepp og Skorradalshrepp ásamt Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Mikill áhugi er á að veita öldruðum aðgang að einni þjónusutugátt og að búa til sameiginlega verkefnastjórn fyrir málaflokk þann sem að öldruðum snýr. Á okkar starfssvæði eins og svo mörgum öðrum getur það vafist fyrir öldruðum og ættingjum þeirra þegar heilsan byrjar að bila hvert eigi að leita varðandi einstaka spurningar, heimahjúkrun er á hendi Heilbrigðisstofnunar, félagsþjónusta á vegum sveitarfélaga, dagdvöl á hendi Dvalarheimilis aldraðra í okkar tilviki og áfram mætti telja upp liði í þessu flækjustigi. Það er mat mitt að tímapunkturinn sé góður, umræðan um tilflutning á umsjón með málefnum aldraðra til sveitarfélaga frá ríki er farin af stað og því ekki að taka ákveðið frumkvæði á hverju svæði fyrir sig ?

Með góðum kveðjum úr Borgarnesi,

Björn Bjarki Þorsteinsson

Framkvæmdastjóri Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi