Í all mörg ár hefur staðið til í velferðarráðuneyti og nú heilbrigðisráðuneyti að gera þjónustusamninga við öldrunarstofnanir landsins. Samningar þessir áttu að vera í höndum Sjúkratrygginga Íslands skv. lögum nr. 112/2008. Í 56. gr. laganna segir að ákvæði IV kafla laganna, Samningar um heilbrigðisþjónustu, komi til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí 2009. Svo sem ekkert athugavert við það sem slíkt að fresta þessu einu sinni í upphafi lagasetningar. Það sem vekur hins vegar athygli er að þessum kafla laganna hefur ítrekað verið frestað með útgáfu sérstakra laga þar sem frestunin ein er innihald laganna.
Fyrst í desember 2009 er gildistöku IV kaflans frestað til 1. janúar 2011. Þá er í desember 2010 aftur frestun á gildistökunni til 1. janúar 2012. Enn og aftur er gildistöku frestað í desember 2011til 1. janúar 2013. Síðasta frestun var gerð í desember 2012 til 1. janúar 2015. Með ítrekuðum frestunum er komið í veg fyrir að Sjúkratryggingar Íslands geri þjónustusamninga við þá sem reka öldrunarheimili landsins. Skýringar á þessu geta verið margar. Ég tel þó að einungis tvær komi til greina á þessum síendurteknu frestunum. Annars vegar treysta stjórnvöld ekki Sjúkratryggingum Íslands til að gera þessa samninga eða að stjórnvöld vita að þessir samningar koma til með að kosta ríkissjóð mun hærri fjárhæðir en greitt er fyrir þessa þjónustu í dag. Fyrr nefnda skýringin er ótrúverðug þar sem starfsfólk SÍ hefur margra ára reynslu af gerð sambærilegra samninga og þar vinnur margt mjög hæft starfsfólk. Eftir stendur þá seinni skýringin sem ég hef reyndar haldið fram í mörg ár. Ráðuneyti velferðar-, heilbrigðis- og fjármála vita nefnilega sem er að þegar verður farið að semja, hvenær svo sem það verður, þá kemur í ljós að sú þjónusta sem öldrunarheimilin eru að veita í dag kostar mun meira en ríkið greiðir fyrir í dag. Enda hafa all flest öldrunarheimili landsins verið rekin með halla undanfarin ár.
Nú stekkur heilbrigðisráðneytið eflaust til og segir að kröfulýsingar sem birtar hafa verið á heimasíðu ráðuneytisins og fjalla um þær kröfur sem ráðuneytið gerir til öldrunarheimilinna varðandi veitingu þjónustunnar, vera ígildi þjónustusamnings. Skilyrði og lýsingar á því hvernig þjónusta á að vera á öldrunarheimilum sem birt er einhliða á heimasíðu ráðuneytis, getur aldrei talist vera skriflegur samningur. Það væri svona svipað og að halda því fram að umdeildar sjónvarpsauglýsingar SA um tveggja prósenta launahækkun sem birst hafa undanfarið væru ígildi samnings. Og að ASÍ væri þar með búið að samþykkja þessa tveggja prósenta launahækkun. Það sjá allir að slíkt gengur einfaldlega ekki upp. Grund hefur sinnt öldrunarþjónustu frá árinu 1922 og Hrafnista í Reykjavík frá árinu 1957. Aldrei hafa verið gerðir skriflegir samningar um rekstur þessara heimila en þau til samans fá um þrjá milljarða á ári frá ríkisvaldinu til rekstrar heimilanna. Svipaða sögu er að segja um flest öldrunarheimili landsins.
En ítrekaðar frestanir á gerð skriflegra þjónustusamninga er ekki það ótrúlegasta í þessu máli. Afstaða Ríkisendurskoðunar til þeirrar staðreyndar að greiddir eru margir milljarðar króna út úr ríkissjóði á hverju ári án skriflegra samninga þar um, án þess að stofnunin grípi til viðeigandi ráðstafana vekur enn meiri furðu. Sú ágæta stofnun hefur oft bent á minna alvarlega tilvik varðandi greiðslur úr ríkissjóði og samningsleysi stofnana sem fá greitt úr ríkissjóði. Hvað varðar þessa ótrúlegu linkind Ríkisendurskoðunar hef ég enga skýringu á en fróðlegt væri að fá að vita.
Höfundur er formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu
Útdráttur: Hvað varðar þessa ótrúlegu linkind Ríkisendurskoðunar hef ég enga skýringu á en fróðlegt væri að fá að vita.