1. gr. Nafn, heimili og varnarþing.

Nafn samtakanna er Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, skammstafað SFV.  Heimili þeirra og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur.

Tilgangur samtakanna er að:

a. Efla samstarf aðildarfélaga, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að bættum starfsskilyrðum.

b. Stuðla að árangursríku samstarfi við heilbrigðisyfirvöld, sveitarfélög,  félagasamtök og aðra þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta.  Annast gerð kjarasamninga við stéttarfélög eftir umboði frá aðildarfélögum hverju sinni

c. Að koma á framfæri við stjórnvöld og almenning afstöðu samtakanna til mála er varða hagsmuni aðildarfélaga og fylgja þeim fram.

d. Að gangast fyrir upplýsinga- og fræðslustarfsemi m.a. í því skyni að stuðla að framförum og hagræðingu í starfsemi og rekstri aðildarfélaga.

3. gr. Aðild.

Aðild að samtökunum geta átt þau fyrirtæki sem starfa við velferðarþjónustu og eru sjálfseignarstofnanir, í eigu félagasamtaka, einkaaðila eða opinberra aðila.

Sveitarfélagi er þó heimilt að sækja um aðild að samtökunum, fyrir hönd tiltekinnar rekstrareiningar innan sveitafélagsins, þrátt fyrir að sá rekstur hafi ekki verið aðskilinn frá annarri starfsemi sveitarfélagsins með formlegum hætti.

Umsókn um aðild að SFV skal senda skriflega til stjórnar samtakanna. Inntökubeiðni telst samþykkt ef meirihluti stjórnar samþykkir hana.  Skjóta má synjun á inntökubeiðni til aðalfundar eða félagsfundar.

4. gr. Árgjöld.

Aðalfundur ákveður árgjald til samtakanna. Árgjöld skulu taka mið af stærð og rekstrarumfang stofnana. Árgjöldin skulu vera tvískipt og samanstanda annars vegar af grunngjaldi að samtökunum og hins vegar hlutfallsgjaldi. Fjárhæð grunngjaldsins getur verið misjöfn milli einstakra hópa aðildarfélaga innan samtakanna (t.d. hjá hjúkrunarheimilum og öðrum aðildarfélögum). Hlutfallsgjald skal taka mið af tekjum aðildarfélags næstliðins árs vegna velferðarþjónustu, sem greiddar eru af ríkinu (eða sveitarfélögum ef sveitarfélög bera ábyrgð á þjónustunni) auk hlutdeildar sjúklings / heimilismanns í greiðslum, sem hið opinbera hefur ákvarðað. Þrátt fyrir þetta er heimilt að taka ákveðna þjónustuþætti samtakanna og fjármagna sérstaklega.

Ný aðildarfélög eru undanþegin greiðslu árgjalds á upphafsári aðildar. Úrsögn úr samtökunum þarf að berast fyrir 1. febrúar, ef aðildarfélag ætlar ekki að greiða aðildargjald fyrir það ár.

5. gr. Stjórn.

Stjórn samtakanna skal skipuð 7 mönnum.  Formaður skal kosinn sérstaklega.  Kjörtímabil stjórnar er eitt ár eða á milli aðalfunda. 

6. gr.  Stjórnarfundir.

Á fyrsta fundi eftir aðalfund skiptir stjórnin með sér verkum og kýs úr sínum hópi varaformann, ritara og gjaldkera.

Stjórn skal tilnefna formann launanefndar samtakanna.

Formaður ákveður fundi stjórnar. Þó er skylt að halda stjórnarfund ef 3 eða fleiri stjórnarmenn óska eftir því.

7. gr. Starfsmaður.

Stjórn er heimilt að ráða starfsmann og/eða kaupa sérfræðiþjónustu, til sértækra tímabundinna verkefna, enda séu þau unnin í þágu meirihluta stofnana.

8. gr. Reikningar.

Reikningsár samtakanna er almanaksárið.

Frumeintak ársreiknings, undirritað af gjaldkera og skoðunarmönnum skal lagt fyrir stjórn og síðan aðalfund til samþykktar.

9. gr. Aðalfundur.

Aðalfundur samtakanna skal haldinn árlega, fyrir lok aprílmánaðar.

Rétt til setu á aðalfundi eiga formaður stjórnar og forstjóri/framkvæmdastjóri aðildarfélaga, eða fulltrúar þeirra.

Aðalfundarboð skal sent félögum með minnst tveggja vikna fyrirvara. Sending fundarboðs á póstlista SFV með rafrænum hætti (tölvupósti) telst fullnægjandi.

Á dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:

1.     Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2.     Skýrsla stjórnar.

3.     Reikningar samtakanna lagðir fram til samþykktar.

4.     Lagabreytingar

5.     Kosning formanns

6.     Kosning annarra stjórnarmanna

7.     Kosning tveggja skoðunarmanna

8.     Ákvörðun árgjalda

9.     Önnur mál

Á dagskrá aðalfundar má taka, sem sérstök atriði, tillögur og mál, sem berast í hendur stjórnarmanna minnst einni viku fyrir aðalfund.

10. gr. Atkvæðagreiðslur og kosningar

Hvert fyrirtæki fer með atkvæðismagn á fundum samtakanna í samræmi við heildartekjur aðildarfélags næstliðins árs vegna velferðarþjónustu. Vægi atkvæða skal vera með eftirfarandi hætti:

   Aðildarfélag með tekjur að fjárhæð kr. 0 – 500.000.000 hefur 1 atkvæði.

   Aðilarfélag með tekjur að fjárhæð kr. 500.000.001 – 1.500.000.000 hefur 2 atkvæði.

   Aðildarfélag með tekjur að fjárhæð kr. 1.500.000.001 eða meira hefur 3 atkvæði.

Meirihluti atkvæða, skv. ofangreindri reiknireglu, ræður úrslitum mála.

Þegar kosið er til stjórnar ræður hlutkesti kjöri, þegar atkvæði falla jafnt.

Kosning stjórnar skal vera skrifleg, sé þess óskað.  

 

11. gr. Fundir.

Stjórnin skal boða til a.m.k. tveggja almennra félagsfunda á milli aðalfunda.  Almennir félagsfundir eru að jafnaði opnir stjórnum aðildarfélaga og starfsfólki þeirra.

12. gr. Lagabreytingar.

Lögum þessum má breyta á aðalfundi, en tillögur um lagabreytingar skulu fylgja aðalfundarboði.

Lög samþykkt á aðalfundi SFV 16. apríl 2018.