1. gr.
Nafn, heimili og varnarþing.

Nafn samtakanna er Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, skammstafað SFV. Heimili og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Tilgangur

Tilgangur samtakanna er að:

a.   Efla samstarf aðildarfélaga, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að bættum starfsskilyrðum.
b.   Sinna skilgreindum verkefnum hverju sinni, svo sem kjara- og persónuverndarmálum, þar á meðal að annast gerð kjarasamninga við stéttarfélög eftir umboði frá aðildarfélögum hverju sinni.
c.   Stuðla að árangursríku samstarfi við stjórnvöld, sveitarfélög, félagasamtök og aðra þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta.
d.   Að koma á framfæri við stjórnvöld og almenning afstöðu samtakanna til mála er varða hagsmuni aðildarfélaga og fylgja þeim fram.
e.   Að gangast fyrir upplýsinga- og fræðslustarfsemi m.a. í því skyni að stuðla að framförum og hagræðingu í starfsemi og rekstri aðildarfélaga.

3. gr.
Aðild að SFV.

Aðild að samtökunum geta átt fyrirtæki, félög og/eða samtök sem starfa við velferðarþjónustu á Íslandi.

Sveitarfélagi er heimilt að sækja um aðild að samtökunum, fyrir hönd tiltekinnar rekstrareiningar innan sveitafélagsins, þrátt fyrir að sá rekstur hafi ekki verið aðskilinn frá annarri starfsemi sveitarfélagsins með formlegum hætti.

Umsókn um aðild að SFV skal senda skriflega til stjórnar samtakanna. Inntökubeiðni telst samþykkt ef meirihluti stjórnar samþykkir hana. Skjóta má ákvörðun um synjun á inntökubeiðni til aðalfundar eða félagsfundar.

4. gr.
Árgjöld.

Aðalfundur ákveður forsendur árgjalda til samtakanna. Árgjöld skulu taka mið af stærð og rekstrarumfangi stofnana. Árgjöldin skulu vera tvískipt og samanstanda annars vegar af grunngjaldi að samtökunum og hins vegar hlutfallsgjaldi sem tekur mið af veltu.

Hlutfallsgjald skal taka mið af tekjum aðildarfélags næstliðins árs vegna velferðarþjónustu, sem greidd er af ríkinu (eða sveitarfélögum ef sveitarfélög bera ábyrgð á þjónustunni) auk hlutdeildar sjúklings / heimilismanns í greiðslum, sem hið opinbera hefur ákvarðað. Ef hlutfallsgjaldið er ekki talið gefa rétta mynd af umfangi starfsemi aðildarfélags er hægt að ákvarða aðildargjald sérstaklega í samræmi við verklagsreglur sem stjórn setur.

Fjárhæð grunngjalds og hlutfallsgjalds getur verið misjöfn milli einstakra hópa aðildarfélaga innan samtakanna (t.d. hjá hjúkrunarheimilum og öðrum aðildarfélögum).

Þrátt fyrir framangreint er heimilt að taka ákveðna þjónustuþætti samtakanna og fjármagna sérstaklega.

Nýtt aðildarfélag greiðir aðildargjöld frá þeim degi sem aðild þess að samtökunum er samþykkt af stjórn. Aðild að samtökunum skal sagt upp með 6 mánaða fyrirvara (talið frá næstu mánaðamótum eftir að uppsögn berst) og aðildargjöld greidd út uppsagnarfrestinn.

Aðildarfélög bera ekki fjárhagslega ábyrgð á skuldbindingum samtakanna, nema hafa sérstaklega undirgengist slíka ábyrgð með samningi.

5. gr.
Stjórn.

Stjórn samtakanna skal skipuð 7 fulltrúum aðildarfélaga. Formaður skal kosinn sérstaklega á aðalfundi til tveggja ára í senn, aðrir stjórnarmenn skulu einnig kosnir til tveggja ára í senn. Á hverju ári skal kjósa þrjá stjórnarmenn á aðalfundi samtakanna svo stjórnarmenn gangi ekki allir úr stjórn sama árið. Láti stjórnarmaður af embætti áður en tveggja ára tímabili lýkur er heimilt að kjósa nýjan í hans stað á aðalfundi og situr sá út kjörtímabil þess sem lætur af störfum.

6. gr.
Stjórnarfundir.

Á fyrsta fundi eftir aðalfund kýs stjórn úr sínum hópi varaformann stjórnar samtakanna.

Stjórn skal tilnefna formann samninganefndar samtakanna.

Stjórn fundar reglulega og skal formaður leggja til tímasetningu funda stjórnar. Þó er skylt að halda stjórnarfund ef 3 eða fleiri stjórnarmenn óska eftir því.

7. gr.
Hlutverk og ábyrgð stjórnar

Stjórn SFV fer með fjármál, framkvæmdir og önnur málefni samtakanna og sér um að skipulag og starfsemi þeirra sé jafnan í réttu og góðu horfi.

Stjórn ræður framkvæmdastjóra SFV til að stýra starfseminni.

Stjórnin skal sjá um að eftirlit sé haft með bókhaldi og fjárreiðum samtakanna og ræður löggiltan endurskoðanda.

8. gr.
Rekstur samtakanna

Framkvæmdastjóri SFV annast daglegan rekstur samtakanna og skal fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórnin setur honum. Óvenjulegar, mikilvægar og stefnumarkandi ákvarðanir skal ævinlega leggja fyrir stjórn til ákvörðunar. Framkvæmdastjóri skal sitja stjórnarfundi, nema annað sé sérstaklega ákveðið og hefur hann þar málfrelsi og tillögurétt.

Framkvæmdastjóra er heimilt að ráða starfsmenn samkvæmt samþykki stjórnar og/eða kaupa sérfræðiþjónustu, til sértækra tímabundinna verkefna, enda séu þau unnin í þágu meirihluta aðildarfélaga.

9. gr.
Reikningar.

Reikningsár samtakanna er almanaksárið.

Frumeintak ársreiknings, undirritað af stjórn, framkvæmdastjóra, endurskoðanda og skoðunarmönnum skal lagt fyrir aðalfund til samþykktar.

10. gr.
Aðalfundur.

Aðalfund samtakanna skal halda árlega, fyrir lok aprílmánaðar.

Rétt til setu á aðalfundi eiga formaður stjórnar og forstjóri/framkvæmdastjóri aðildarfélaga, eða fulltrúar þeirra.

Aðalfundarboð skal sent félögum með minnst tveggja vikna fyrirvara. Sending fundarboðs á póstlista SFV með rafrænum hætti (tölvupósti) telst fullnægjandi.

Á dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:

 1.   Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2.   Skýrsla stjórnar.
 3.   Ársreikningur samtakanna lagður fram til samþykktar.
 4.   Lagabreytingar
 5.   Kosning formanns
 6.   Kosning annarra stjórnarmanna
 7.   Kosning tveggja skoðunarmanna
 8.   Ákvörðun forsenda árgjalda
 9.   Önnur mál

Á dagskrá aðalfundar má taka, sem sérstök atriði, tillögur og mál, sem berast í hendur stjórnarmanna minnst einni viku fyrir aðalfund.

Hvert fyrirtæki fer með atkvæðismagn á fundum samtakanna í samræmi við greidd aðildargjöld til samtakanna samkvæmt síðasta starfsári. Vægi atkvæða skal vera með eftirfarandi hætti:

 • Aðildarfélag með tekjur að fjárhæð kr. 0 – 500.000.000 hefur 1 atkvæði.
 • Aðildarfélag með tekjur að fjárhæð kr. 500.000.001 – 1.500.000.000 hefur 2 atkvæði.
 • Aðildarfélag með tekjur að fjárhæð kr. 1.500.000.001 eða meira hefur 3 atkvæði.

Meirihluti atkvæða, skv. ofangreindri reiknireglu, ræður úrslitum mála.

Þegar kosið er til stjórnar ræður hlutkesti kjöri, þegar atkvæði falla jafnt.

Kosning stjórnar skal vera skrifleg, sé þess óskað.

11. gr.
Félagsfundir.

Stjórnin skal boða til a.m.k. tveggja almennra félagsfunda á milli aðalfunda. Almennir félagsfundir eru að jafnaði opnir stjórnum aðildarfélaga og starfsfólki þeirra.

Boða skal til funda með að lágmarki tveggja daga fyrirvara. Halda skal félagsfund ef þriðjungur aðildarfélaga óska eftir því.

12. gr.
Lagabreytingar.

Lögum þessum verður eigi breytt nema á lögmætum aðalfundi. Heimilt er þó á aðalfundi eða framhaldsaðalfundi að vísa lagabreytingum til allsherjaratkvæðagreiðslu allra aðildarfélaga SFV.

Öll aðildarfélög geta lagt fram tillögu að lagabreytingum og skulu tillögur berast stjórn félagsins fyrir lok febrúar. Á aðalfundi er eingöngu heimilt að gera breytingartillögur við þær lagabreytingartillögur sem fylgdu fundarboði aðalfundar. Aðrar breytingatillögur verða ekki teknar fyrir. Tillögur til breytinga á lögum félagsins skulu fylgja með boðun aðalfundar.

Til þess að lagabreyting nái fram að ganga verður hún að vera samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða, sbr. 10.gr. hér að ofan varðandi vægi atkvæða.

13. gr.
Slit samtakanna.

Ákvörðun um slit samtakanna eða samruna þeirra við önnur samtök eða félög verður ekki samþykkt nema 2/3 allra aðildarfélaga SFV samþykki það, sbr. 10.gr. hér að ofan varðandi vægi atkvæða.

Verði tillaga um slit samtakanna samþykkt skal boðað til sérstaks félagsslitafundar sem tekur ákvörðun um ráðstöfun eigna og greiðslu skulda. Ákvörðun um ráðstöfun eigna og greiðslu skulda skal samþykkt með 2/3 greiddra atkvæða, sbr. 10. gr. hér að ofan varðandi vægi atkvæða.

 


Lög þessi voru samþykkt með nýjustu breytingum á aðalfundi SFV haldinn 27. apríl 2023.