Þá er sumarið liðið, það kom reyndar aldrei austur á land þetta árið.
Það hefði ekki veitt af, að fá smá birtu og yl inní þessa ekki björtu tíma sem virðast einkennast af endalausum niðurskurðaráformum.
Á Uppsölum er búið að fara yfir alla liði í rekstri og mönnun heimilisins með gagnrýnis augum hvað hagræðingu varðar, og tel ég ekki hægt að komast lengra í niðurskurði hér.
Ekki er vafamál að heilbrigðis, öldrunar, fræðslumál, löggæsla og fleiri málaflokkar eru útgjaldafrekir.
Það er eftirsóknarvert að halda öllum þessum málaflokkum í rekstri.
Er hægt að sleppa einhverjum? Á kosnað einhvers?
Það er þrautseigja okkar skjólstæðinga sem hefur byggt upp þessa frábæru heilbrigðisþjónustu sem við höfum verið þekkt fyrir. Verður hún núna þurkuð út með nokkrum pennastrikum?
Pétur Magnússon óskaði eftir einhverjum Þráni til að berjast fyrir öldrunarþjónustna á alþingi. Ekki veit ég hvort einhver hefur boðið sig fram?
Getur ekki verið að svona vinnubrögð eins og Þráinn Bertelsson viðhafði og hafa tíðkast í gegnum árin, ( hóta að styðja ekki þetta eða hitt) séu einmitt til þess fallinn að ýta málaflokkum eins og öldrunarmálum afturfyrir í goggunarröðinni um þær krónur sem þó eru til skiptanna.
Bankarnir eru þeir einu sem sýna hagnað, það sem af er árinu. Er ekki gráupplagt að stofna einn slíkan fyrir SFH til stuðnings við okkar stofnanir? Þá mundum við sjá frammá bjartari tíma og þyrftum engu að kvíða, þrátt fyrir að fá hvorki sumar né haust blíðu.
Ósk Bragadóttir,
Rekstrarstjóri Uppsala, Fáskrúðsfirði