Fréttir og tilkynningar

Velferðarráðuneyti steinsteypunnar

Undanfarið hefur töluvert verið fjallað um sameiningu Landlæknisembættisins og lýðheilsustöðvar sem nýlega fluttu í gömlu Heilsuverndarstöðina við Barónstíg. Þessi sameining er spennandi og áhugaverð fyrir þá sem starfa að velferðar- og heilbrigðismálum. Nokkurn skugga hefur þó borið á fréttaflutning af sameiningunni. Komið hefur í ljós að eldra húsnæði þessara stofnana stendur autt eftir flutninginn og ráðuneytið er skuldbundið að greiða árlega tugi milljóna í húsaleigu vegna óhagstæðra samninga þar um.

Okkur sem rekum fyrirtæki í velferðarþjónustunni rekur í rogastans við þessar fréttir.

Undanfarið hefur Velferðarráðuneyti Íslands ekki veigrað sér við, með einhliða ákvörðunum, að brjóta undirritaða þjónustusamninga við ýmsa í velferðarþjónustunni, meðal annars aðildarfélög innan Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.

Rökin eru þá að Velferðarráðuneytið megi brjóta undirritaða samninga og greiða minna fyrir þjónustuna, þar sem ástandið í fjármálum ríkisins sé svo slæmt. Þetta hefur í för með sér að notendur velferðarþjónustunnar fá ekki alla þá þjónustu sem þeir þurfa en búið var að semja um og þjónustuaðilarnir sem vinna eftir samningunum lenda skiljanlega í miklum erfiðleikum með sinn rekstur.

Þetta er að gerast á sama tíma og þetta sama velferðarráðuneyti borgar tugi milljóna í húsaleigu fyrir húnæði sem það notar ekki.

Ekki ætlum við að mæla því bót að samningar séu sviknir og lög séu brotin. En ef neyðin er það mikil að velferðarráðuneytið verður að ganga á bak orða sinna og svíkja samninga, hefðu nú margir talið að húsaleigusamningar ættu nú að vera með því fyrsta sem lenti í slíkum flokki. En kannski höfum við bara misskilið málin og kannski er velferð steinsteypunnar mikilvægari en velferð þeirra landsmanna sem þurfa á þjónustu velferðar- og heilbrigðisstofnana að halda?

 

Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu

Pétur Magnússon, varaformaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu