Fréttir og tilkynningar

Viska og virðing

gislipall

Undanfarin ár hafa verið undarleg í íslensku samfélagi. Við gleymdum okkur í græðginni. Efnisleg gæði voru sett framar flestu í veruleikafirrtu þjóðfélagi. Enginn var maður með mönnum nema að búa í stóru einbýlishúsi, eiga dýran jeppa og flottan sportbíl, heimabíó og risastóran flatskjá, heitan pott og gufubað og ferðast til útlanda nokkrum sinnum á ári. Við afsettum eldri starfsmenn í bankakerfinu sem og öðrum fyrirtækjum og stofnunum sem höndluðu með peninga á einn eða annan hátt. Varkárni og skynsemi þóttu ekki vænlegir kostir, áhætta og dirfska var eitthvað sem átti upp á pallborðið. Allt var þetta ein stór sjónhverfing og stjórnendur bankanna gengu ansi langt í þessum blekkingaleik, reyndar með góðum árangri framan af. Flest héldum við að þessir stjórnendur væru töframenn sem gætu endalaust búið til hagnað úr öllu því sem þeir komu nálægt. Það sem gleymdist í öllu þessu var að skjótfenginn gróði og í mörgum þessara tilvika ofsagróði, er ekki eitthvað sem getur talist eðlilegt. Hagnaður, sama um hvaða atvinnugrein er að ræða kemur til með dugnaði, útsjónarsemi og mikilli vinnu. Peningar vaxa ekki á trjánum, það er nokkuð víst. Einnig gleymdust öll varfærnissjónarmið. Þeir sem eldri eru hafa eðli máls samkvæmt meiri reynslu en þeir sem eru yngri. Þeir hafa prófað margt og lent í ýmiskonar mótlæti. Þetta eru þeir sem hafa byggt upp þjóðfélagið okkar frá lokum seinni heimstyrjaldar allt fram undir síðustu aldamót.  Þessum einstaklingum var einfaldlega vikið til hliðar. Viska þeirra og vísdómur þótti ekki henta. Þessi hópur var ekki nógu framsækinn, nógu djarfur í ákvarðanatöku, var dragbítur á stórar fjárfestingar. Okkur bar einfaldlega ekki gæfa til að bera virðingu fyrir reynslu þessa hóps, því er nú miður. Auðvitað er auðvelt að vera vitur eftir á og segja það hafa verið mistök að taka ekki mark á varnaðarorðum þeirra sem vildu fara varlegar í fjárfestingum og útvíkkun starfsemi fjármálafyrirtækja og annarra fyrirtækja í tengdri starfsemi. Eitt getum við þó lært af þessu öllu saman. Það er að bera virðingu fyrir þeim sem eldri og reyndari eru. Þeirra dýrmæta reynsla er eitthvað sem hverju samfélagi ber að nýta. Við verðum að læra af reynslunni. Það sem gerðist fram að haustinu 2008 má ekki gerast aftur.  Berum virðingu fyrir þeim sem reynslu og visku hafa.

Gísli Páll Pálsson
formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu