Yfirlýsing frá samninganefnd Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu um þjónustu hjúkrunarheimila.
Með hliðsjón af yfirlýsingum stjórnvalda um gerð þjónustusamninga við hjúkrunarheimili landsins (þ.á.m. yfirlýsingu SÍ dags. 23. janúar sl.), sem og fyrri yfirlýsingar samninganefndar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), vill samninganefndin koma á framfæri eftirfarandi yfirlýsingu:
Þegar viðræður hófust um framlengingu rammasamnings SÍ fyrir þjónustu hjúkrunarheimila um mitt ár 2018, lagði samninganefnd SFV fram lista með 14 atriðum sem samninganefndin taldi að þyrfti að lagfæra til að hægt væri að framlengja samninginn. Ástæða þess var að við gerð rammasamnings höfðu mörg mikilvæg hagsmunamál verið tekin til hliðar sem átti að skoða betur í vinnuhópum á samningstímanum. Var stofnun vinnuhópanna ákveðin málamiðlun milli aðila þar sem ágreiningur var um mörg þessa atriða (og er enn). Um var að ræða eftirfarandi vinnuhópa: 1) vinnuhópur um rekstrargrunn hjúkrunarheimila (þ.á.m. smæðarálag), 2) vinnuhópur um húsnæðimál hjúkrunarheimila 3) vinnuhópur RAI – mats kerfi hjúkrunarheimila. Þá var á samningstímanum stofnaður sérstakur vinnuhópur milli aðila til að skoða kostnað vegna íbúa sem þurfa sérhæfða eða óvenjukostnaðarsama heilbrigðisþjónustu, sem og hjálpartæki. Staðan var þó sú að þegar viðræður hófust um framlengingu rammasamningsins seinnipart árs 2018, hafði enginn vinnuhópanna klárað verkefni sín að fullu.
Rammasamningur aðila rann út 31. desember 2018. Haldnir voru alls fjórir samningafundir milli SÍ annars vegar og samninganefndar SFV og Sambands ísl. sv. hins vegar, á tímabilinu frá 1. janúar 2019 – 28. nóvember s.á. Voru allir þeir fundir haldnir að frumkvæði samninganefndar SFV. SÍ lýstu því yfir fljótlega á árinu 2019 að hjá stjórnvöldum væri ekki lengur vilji fyrir óbreyttum rammasamningi. Hins vegar kom ekki fram fyrr en 29. nóvember s.á. hvaða breytingar SÍ vildu gera á samningnum og hvaða forsendur SÍ leggðu til grundvallar í viðræðunum. Það var því ekki fyrr en í lok nóvember 2019 sem ,,viðræður“ hófust af alvöru um hvernig samningur milli aðila, samkvæmt forsendum SÍ, myndi líta út. Þá kom einnig fram af hálfu SÍ að ef ekki væri gengið frá samningi innan þriggja vikna, fyrir 20. desember 2019, myndu heimilin verða af um 216 milljóna króna fjárveitingu á árinu 2019.
Samninganefnd SFV vill undirstrika að vinnuhópur sem stofnað var til í þjónustusamningunum núna 2019 og á að skoða rekstrargrunn hjúkrunarheimila er s.s. ekki nýmæli í samningi SÍ við hjúkrunarheimilin. Vinnuhópurinn sem stofnað var til með rammasamningi árið 2016 átti að ,,fjalla um rekstrarkostnað þeirra öldrunarstofnana sem rammasamningurinn nær til…“, ,,setja upp raunhæft rekstrarlíkan fyrir stofnanir sem vinna eftir kröfulýsingu velferðarráðuneytisins…“,,greina sundurliðaðan rekstrarkostnað og rekstrarfyrirkomulag ásamt upplýsingum um mönnun og hjúkrunarþyngd.“. Þegar rekstrarlíkanið lægi fyrir átti að skoða hvernig ,,hægt væri að nýta það við endurskoðun daggjalda og fjármögnun þeirra stofnana sem í hlut eiga.“ Verkefnið gekk þó ekki sem skyldi á gildistíma rammasamningsins. Áfangaskýrsla kom frá vinnuhópnum í febrúar 2018 þar sem búið var að greina rekstrarkostnað heimilanna með ákveðnum hætti. Á þeim tímapunkti var hins vegar ákveðið að leggja niður greiningardeild SÍ. Eftir það gekk greiningarvinnan mun hægar og vék að endingu fyrir samningaviðræðum um þjónustuna. Þegar SÍ komu svo fram með sínar forsendur fyrir samningagerð á fundi þann 29. nóvember sl. gekk tillaga þeirra út á að allir vinnuhópar yrðu lagðir niður, þ.á.m. vinnuhópur um rekstrargrunn hjúkrunarheimila. Hins vegar var það samninganefnd SFV sem óskaði eftir því að vinnuhópur myndi starfa áfram sem myndi rýna rekstrargrunn hjúkrunarheimila. Taldi samninganefndin nauðsynlegt að afla að nýju þeirra upplýsinga sem aflað var 2017 um rekstur heimilanna ekki síst til að afla gagna fyrir hina þverpólitísku nefnd sem meirihluti fjárlaganefndar hefur, við gerð fjárlaga og fjármálaáætlunar, ítrekað kallað eftir að verði skipuð til að yfirfara rekstrargrunn hjúkrunarheimilanna. SÍ féllst á þessa beiðni en hafði ekki frumkvæði að slíkum vinnuhóp eins og skilja má af þeirra yfirlýsingu. Einnig höfðu SFV ítrekað lagt það til á gildistíma rammasamningsins að gerð yrði breyting á kerfinu þannig að einstaklingur myndi halda rétti sínum til hjálpartækja hjá SÍ þrátt fyrir að flytjast inn á hjúkrunarheimili. SÍ og SFV greindi hins vegar á um hvaða hjálpartæki ættu að falla þarna undir. Í viðræðunum í nóvember 2019 lögðu SÍ fram, að eigin frumkvæði, lista yfir þau hjálpartæki sem SÍ töldu rétt að kostnaðargreina í rekstri hjúkrunarheimila. Umræðum samninganefndar SFV um breytingar á þeim lista var hafnað.
Það er rétt að samninganefnd SFV var kunnugt um það í desember 2019 hvað fælist í samningum SÍ við hjúkrunarheimilin. Þess vegna var það heimilunum erfitt að undirgangast þessa samninga. Í þessum nýja samningi er ekki gert ráð fyrir að bætt verði við fjármunum til að mæta aukinni þjónustuþörf þeirra einstaklinga sem munu þurfa að nýta sér þjónustu í hjúkrunar – og dvalarrýmum á samningstímanum. Í því felst að ef íbúar eins hjúkrunarheimilis þurfa aukna þjónustu vegna heilsufarsástæðna, þá mun fjármagn vegna þjónustu við íbúana ekki verða aukið í réttu hlutfalli við þörfina. Greiðslur vegna þjónustu við íbúa sem hafa sömu þjónustuþörf og áður, munu lækka. Þetta gallaða kerfi var notað af hálfu ríkisins við útdeilingu fjármuna áður en gerður var þjónustusamningur við hjúkrunarheimilin árið 2016. Nýr samningur felur í sér afturhvarf til þess kerfis og gengur gegn því sjónarmiði að greiðslur fylgi þjónustuþegum og í samræmi við þeirra þörf. En það var enginn annar raunverulegur valkostur í stöðunni fyrir hjúkrunarheimilin heldur en undirgangast þennan samning, enda lá fyrir að ef ekki yrði gengið frá samningi myndi SÍ bara setja einhliða gjaldskrá um starfsemina, með takmarkaðri hækkun einingarverðs, jafnvel einhliða breytingum á greiðslum til heimilanna. Þá myndu heimilin einnig missa af 276 milljóna króna fjárveitingu fyrir árið 2019 vegna aukningar á hjúkrunarþyngd. Samningsstaða hjúkrunarheimila var því engin. Aðstöðumunur samningsaðila við samningsborðið er mikill og aflsmunar beitt.
Það eru margir annmarkar á þessari útfærslu ríkisins við fjármögnun heilbrigðisþjónustu sem á sér stað í dag í gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Margir og alvarlegir vankantar eru á því ferli, eins og fram kemur í skýrslu KPMG frá nóvember 2019. Allir helstu viðsemjendur SÍ (SFV, Læknafélag Reykjavíkur, Félag sjúkraþjálfara, Tannlæknafélag Íslands og Samtök heilbrigðisfyrirtækja) hafa nú ítrekað kallað eftir því, sameiginlega og í sitt hvoru lagi, að þessu fyrirkomulagi verði breytt. Löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið hljóta að átta sig á því að gera þurfi róttækar breytingar á þessari umgjörð í heild sinni og það þarf að gera áður en verulegar og óafturkræfar skemmdir verða á heilbrigðiskerfinu.
Ef óskað er eftir frekari upplýsingum er hægt að hafa samband við Pétur Magnússon, stjórnarformann SFV (s: 841-1600) eða Eybjörgu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra SFV (s: 898-9225).