Fréttir og tilkynningar

Yfirlýsing frá stjórn SFV

Reykjavík, 3. febrúar 2016

 

Yfirlýsing frá stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu

 

Stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) lýsir yfir mikilli óánægju sinni með þá staðreynd að nú, í byrjun febrúar 2016, skuli ekki enn liggja fyrir hvaða greiðslur verði inntar af hendi til hjúkrunarheimila landsins á yfirstandandi ári. Þrátt fyrir að komið sé fram í febrúar 2016 liggur þannig ekki enn fyrir hvaða greiðslur hjúkrunarheimilin muni fá vegna janúar 2016.

Stjórnendur hjúkrunarheimila, eins og aðrir rekstraraðilar, verða að geta gert sér grein fyrir því hverjar tekjur hjúkrunarheimilanna verða á árinu 2016 svo hægt sé að útbúa og fara eftir fjárhagsáætlunum. Er þetta sérstaklega mikilvægt nú, þar sem árið 2015 var aðalkjarasamningsár þar sem samið var við starfsstéttir sem starfa inni á hjúkrunarheimilum um talsverðar launahækkanir. Alls óljóst er enn hvort og hvernig þær hækkanir muni skila sér í auknum greiðslum til einstakra hjúkrunarheimila.

Stjórn SFV skorar á stjórnvöld að birta strax nauðsynlegar reglugerðir og gjaldskrár til ákvörðunar greiðslna til hjúkrunarheimila.