Heilbrigðisþing 2025. Endurhæfing – leiðir til betra lífs
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra boðar til heilbrigðisþings ársins 2025 sem helgað verður heilbrigðistengdri endurhæfingu.
Þingið er helgað málefni sem er afar mikilvægt í samfélaginu í dag og tengist starfi flestra aðildarfélaga SFV beint og óbeint.
Þingið verður haldið fimmtudaginn 20. nóvember kl. 9.00-16.00 á Hótel Hilton Nordica.
Í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að á þinginu verður farið stuttlega yfir sögu, þróun endurhæfingar á Íslandi og fjallað um stöðu hennar í dag. Uppstilling þjónustukeðjunnar, snemmtæk íhlutun, samræmt mat á endurhæfingarþörfum og gagnreyndar árangursmælingar verða einnig til umræðu. Síðast en ekki síst verður horft til framtíðar og ræddar ýmsar áskoranir sem sjá má fyrir, m.a. vegna lýðfræðilegrar þróunar og hvernig megi takast á við þær sem best.
Sjá nánar á upplýsingasíðu um heilbrigðisþingið 2025. Þar leggur heilbrigðisráðherra áherslu á mikilvægi endurhæfingar, að endurhæfingarúrræði hafi orðið til að frumkvæði öflugra félagasamtaka til að bregðast við þjónustu- og stuðningsþörf ákveðinna hópa.
Þá kemur fram í orðum ráðherra að við upphaf næsta árs verði ýtt úr vör vinnu við gerð hvítbókar um endurhæfingarþjónustu innan heilbrgðistkerfisins til að ná yfirsýn yfir málaflokkinn í heild, efla og skýra kaup hins opinbera á endurhæfingarþjónustu og tryggja skýr markmið og árangur þjónustunnar. Drög að hvítbókinni verða birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda skömmu fyrir heilbrigðisþingið.
Upplýsingar um fyrirlesara liggja að mestu fyrir á ofangreindri upplýsingarsíðu um heilbrigðisþingið. Endanleg dagskrá þingsins verður birt þar fljótlega.
Opnað hefur verið fyrir skráningu þátttöku fyrir þá sem hyggjast mæta til þingsins á Hótel Nordica: Skráning á heilbrigðisþing. Einnig verður hægt að fylgjast með þinginu í beinu streymi og er þá ekki þörf á skráningu.