Fréttir og tilkynningar

Viðbrögð hjúkrunarheimila við aukningu í greiningum á Covid-19

Undnafarið hefur verið aukning í greiningum á COVID-19 í samfélaginu og Landspítalinn hefur aukið sóttvarnaráðstafanir sínar. Ekki hafa þó komið upp alvarleg veikindi í tengslum við þetta.

Samráðshópur um starfsemi hjúkrunarheimila og dagdvala um Covid-19 fundaði 17. júlí vegna þessa og á þeim fundi kom fram að sóttvarnarlæknir telur ekki ástæðu til að mæla með almennri grímuskyldu né takmörkunum á heimsóknum á hjúkrunarheimili.

Sóttvarnalæknir mælir þó með að grundvallarsmitgát sé ávallt viðhöfð við öll samskipti milli manna og smitleiðir sýkla, ef viðkomandi er með einkenni sýkingar (kvef, hósta, hita, niðurgang) rofnar með réttu vinnulagi sem kallað er Grundvallarvarúð gegn sýkingum. Grundvallarvarúðin felur í sér:

  • Handhreinsun við rétt tilefni
  • Varúð við hósta og hnerra
  • Rétta notkun hlífðarbúnaðar eftir því hvaða smitleið skal rjúfa
  • Góða loftræstingu
  • Varúð gegn stunguóhöppum
  • Þrif (með sápuvatnsvættum klúti) á algengum snertiflötum í umhverfi
  • Rétta meðferð hreins og óhreins líns
  • Öruggan frágang á sorpi sem inniheldur líkamsvessa.

Þá minnir sóttvarnarlæknir á að viðhafa almennar sóttvarnir s.s. að halda sig til hlés í veikindum og forðast umgengni við viðkvæma ef fólk er með einkenni. Sérstakt upplýsingablað um grundvallarvarúð gegn sýkingum á hjúkrunarheimilum er að finna á vef Landlæknis/sóttvarnarlæknis undir Sýkingavarnir innan heilbrigðisþjónustu.

Ef einstök hjúkrunarheimili telja þörf á, vegna útbreiddra smita hjá þeim, að setja strangari reglur um umgengni eða grímunotkun þá geta þau gert það.

Fram kom á fundinum að næsta haust verður að venju boðið í bólusetningar gegn inflúensu og COVID-19. Sóttvarnalæknir mælir eindregið með að starfsfólk hjúkrunarheimila nýti sér slíkar bólusetningar þegar þar að kemur, því með því er dregið úr hættu á að starfsfólkið geti borið smit til íbúa.